Blog #2 - Week 7

Blogg #2 - Vika 7

Ég byrjaði á að skrifa ritgerð um hvað samfélagsleg nýsköpun þýðir fyrir mér og af hverju ég trúi á hana sem mögulega lausn við mörgum vandamálum sem íþyngja okkar nútíma samfélagi. En þetta vikulega blogg á að vera um það sem dregur á dagana mína, þannig að hitt fær að bíða.


Sæl verið þið sem þetta lesið. Í liðinni viku fór ég á fætur yfirleitt í kringum átta til að æfa með Anitu. Æfingar ganga vel og ég finn örar framfarir. Við ætlum að gera video sem eiga að sýna og útskýra æfingarnar, til að útskýra fyrir þeim sem munu hjálpa mér að æfa í náinni framtíð. Kannski deili ég því hér. Og kannski deili ég vangaveltum um allt þetta ferli sem ég er búinn að ganga í gegnum undanfarin ár. 


Ég fékk kjötsúpu hjá Sjalfsbjörg á höfuðborgarsvæðinu með Guðna Th og Elizu. Gaman að segja frá því að myndin um ferð mína til Nepal þar sem Guðni lék mikilvægt hlutverk, er komin á Amazon https://www.amazon.co.uk/Atomy-Brandur-Karlsson/dp/B0CMSD5G22

Svo fór ég með gyðjunni Ágústu að sjá göldrótta Víking spila í Hörpunni. Hvernig hann lék á flygilinn var ein magnaðasta tónleika upplifun sem ég hef átt.

Tvö matarboð með bresku fjölskyldunni minni frá Swanage og margir yndislegir göngutúrar með hundana í þessu fallega veðri sem er búið að vera.

Fór á listasöfn og sá nokkra góða gjörninga og fundaði með Ayis, sýningarstjóra um sýninguna mína um Nepal sem fær vonandi heimili fljótlega, hlakka til að segja frá því seinna. Svo hitti ég Rene í hafnarhaus og planaði aðeins yfirvofandi ferð til Portúgal, er að henda mér út í óvissuna og treysta á að þetta reddist, að góðum Íslendinga sið.


Æðisleg vika. Margt spennandi í gangi.

Sjáumst í næstu viku!

Aftur á bloggið